Vinsælustu húsnæðislánin: tegundir og veitendur

Herborg.is hefur nú fengið 50 þúsund heimsóknir frá opnun í september. Með því að skoða hegðun gesta í þessum heimsóknum má sjá hvaða tegundir lána og lánveitendur njóta mestra vinsælda. Það gefur vísbendingu um mikilvægustu þættina þegar kemur að því að velja húsnæðislán.

Vinsælustu lánategundirnar

Byrjum á að skoða lánategundirnar. Með því að mæla hvernig notendur Herborgar raða dálkum samanburðartöflunnar á forsíðunni má komast að því hvaða lán þeir vilja skoða. Hver röðun er aðeins skráð einu sinni, sem þýðir að tölfræðin breytist ekki ef notandi raðar eftir sama dálkinum oftar en einu sinni. Hér má sjá vinsældir ólíkra lánategunda yfir tíma. Notast er við tveggja vikna hlaupandi meðaltal:

Það fyrsta sem við tökum eftir er að allar fjórar lánategundir njóta nokkurra vinsælda. Engin lánategund fer mikið niður fyrir 20% af heildinni og engin fer mikið upp fyrir 30%. Þeir lánveitendur sem bjóða upp á flestar eða allar lánategundirnar koma því til skoðunar hjá fleirum.

Tvær tegundir eru þó vinsælli en hinar: annars vegar verðtryggð lán með breytilegum vöxtum, svokölluð Íslandslán, og hins vegar óverðtryggð lán með föstum vöxtum.

Athyglisvert er að sjá að þessar tvær lánategundir skiptast reglulega á fyrsta sætinu. Í október og undir lok ársins 2017 voru óverðtryggðu fastvaxtalánin vinsælust, en á öðrum tímum voru Íslandslánin vinsælust. Þetta gæti verið vegna þess að mat notenda á framtíðarverðbólgu breytist: ef mikil verðbólga er væntanleg borgar sig frekar að fara í óverðtryggt fastvaxtalán, en ef verðlag helst stöðugt eru Íslandslánin hagkvæmari kostur.

Hinar tvær tegundirnar, verðtryggð fastvaxtalán og óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, eru saman skoðaðar af 40-45% notenda. Þeirra á milli eru þau síðarnefndu hins vegar nokkuð vinsælli.

Það kemur nokkuð á óvart, því eins og kom fram í grein hér á Herborgu í október síðastliðinn veita óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum litla vörn gegn verðbólgu. Lánveitandinn getur þá hækkað vextina um leið og hann telur að verðbólga sé í vændum, sem þýðir að afborganir geta hækkað umtalsvert í slíkum aðstæðum. Verðtryggðu lánin bera sama kostnað á endanum, en óvissan um upphæð næstu afborgunar er þó mun minni.

Vinsælustu lánveitendurnir

Við getum líka séð vinsældir lánveitendanna sjálfra með því að skoða hve oft notendur smella annað hvort á nafnið þeirra, til að heimsækja heimasíðuna, eða opna reiknivélina sem allir bjóða upp á. Líkt og með lánategundirnar er hér aðeins um einstakar heimsóknir að ræða, svo ef notandi smellir oft á sama tengilinn er heimsóknin aðeins talin einu sinni. Hér má sjá hlutfallslegar vinsældir allra 14 lánveitenda á síðunni, mælt frá opnun:

LSR trónir hér á toppnum, enda hefur sjóðurinn lengst af boðið upp á lægstu vextina á húsnæðislánum. Þar sem einungis þeir sem unnið hafa hjá hinu opinbera geta tekið lán hjá sjóðnum má þó vænta þess að margir þeirra sem skoða hann endi á að taka lán annars staðar. Þá hefur samkeppnin aukist umtalsvert á síðustu vikum, en nú bjóða til dæmis þrír aðrir lífeyrissjóðir sambærileg kjör á verðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum.

Almennt eru lífeyrissjóðirnir vinsælli en bankarnir. Þeir skipa fjögur af fimm efstu sætunum og átta af þeim tíu efstu. Af bönkunum er Landsbankinn vinsælastur, en hann hefur lengst af boðið hagstæðustu kjörin þeirra á milli.

Hvaða áhrif hafa vextir og hámarkslán?

En samanburðurinn á lánveitendum hér að ofan segir ekki alla söguna. Nær allir lánveitendur hafa breytt vöxtum á lánum sínum á þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru frá opnun Herborgar. Áhugavert er að skoða hvort breytingar á vöxtum hafi áhrif á áhuga á viðkomandi lánveitanda.

Hér má sjá hlutfallslegar vinsældir lánveitenda síðunnar, annars vegar fyrstu 30 daga frá opnun hennar, og hins vegar síðastliðna 30 daga:

Við sjáum að vinsældirnar hafa breyst umtalsvert. Á meðan LSR, og að nokkru leyti LÍVE, báru höfuð og herðar yfir aðra í upphafi hafa aðrir lánveitendur sótt í sig veðrið. Landsbankinn, Birta, Almenni, Brú og Arion hafa þannig allir lækkað vexti á tímabilinu á milli mælinga og sjá mikla aukningu í áhuga á sínum lánum í kjölfarið. Sparisjóðirnir, sem hafa lækkað vexti lítillega en eru þó enn með ein óhagstæðustu lánin, verma hins vegar ennþá neðsta sætið.

Þetta sýnir okkur líka að hámarkslánveiting virðist skipta talsverðu máli. Landsbankinn, sem er í 4., 5., 9. og 9. sæti yfir hagstæðustu lánveitendurna eftir því um hvaða lánategund ræðir er þannig engu að síður í öðru sæti, rétt á eftir LSR, þegar kemur að vinsældum síðastliðinn mánuð. Bankinn hefur það fram yfir lífeyrissjóðina að hámarkslánveiting nemur 80% af virðismati við endurfjármögnun og 85% af kaupverði við fasteignakaup, á meðan að hámarkslán lífeyrissjóða liggja á bilinu 60-75%.

Miklar breytingar

Heilt yfir virðist húsnæðislánamarkaðurinn vera fjölbreyttur og nægt pláss bæði fyrir margar ólíkar lánategundir og lánveitendur. Breytingar á vaxtakjörum og hámarkslánveitingum hafa þá umtalsverð áhrif á áhugann.

Lánveitendur virðast taka eftir þessu líka, en til marks um það hafa þeir gert 15 breytingar á lánakjörum á síðustu 30 dögum. Þeir sem eru að skoða framboðið ættu því að fylgjast vel með. Það er einfaldast hér á Herborg.is, en lánakjörin sem birt eru í samanburðartöflunni eru uppfærð jafnóðum þegar breytingar eiga sér stað.

- Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur