„Hvers vegna tekur þetta svona ótrúlega langan tíma?“

Þetta var spurningin sem kviknaði þegar ég leitaði að láni til að kaupa mína fyrstu íbúð. Eftir að hafa legið yfir heimasíðum banka og lífeyrissjóða (þeir eru 28 talsins!) í nokkra daga tókst mér loksins að útbúa almennilegt yfirlit yfir stöðuna.

Þegar ég ræddi þetta ferli við aðra kom það sama í ljós. Fæstir vissu af öllum sem bjóða upp á húsnæðislán á Íslandi og höfðu bara tekið lán hjá einhverjum sem var áberandi á þeim tíma. En oft voru það ekki hagkvæmustu lánin sem voru í boði. Ég fór því að deila yfirlitinu með sífellt fleirum sem vildu fylgjast með lánamarkaðnum.

Frá þeim tíma hef ég reglulega uppfært yfirlitið í takti við vaxtabreytingar hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Þetta hefur gert þeim sem nota yfirlitið kleift að finna besta lánveitandann vegna kaupa á íbúð - og líka auðveldað þeim að fylgjast með þróun vaxta til að endurfjármagna óhagstæð lán.

Herborg er þetta yfirlit á aðgengilegu formi fyrir hvern sem er. Þeir sem eru að hugsa um lántöku eða endurfjármögnun, eða vilja einfaldlega fylgjast með markaðnum, geta núna borið saman öll húsnæðislán á Íslandi á einum stað.

Ég vona að þessi síða auðveldi þér að skilja húsnæðislánamarkaðinn og geri þér kleift að finna hagkvæmari lán. Ef þú vilt hafa samband við mig, sendu mér endilega skilaboð hér á síðunni eða tölvupóst á netfangið bjorn@herborg.is.

- Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur