Fjórir lækka vexti á nýju ári

Eftir áramótin hafa fjórir lánveitendur lækkað vexti á lánum sínum: Almenni, Gildi, LÍVE og LSR. Allir lækkuðu breytilega vexti á verðtryggðum lánum, en auk þess lækkaði almenni breytilega vexti á óverðtryggðum lánum, og Gildi lækkaði bæði fasta vexti af verðtryggðum lánum og breytilega vexti af óverðtryggðum lánum.

Í flokki Íslandslána, þ.e. verðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum, er LSR nú í fyrsta sinn kominn niður úr fyrsta sæti yfir hagstæðustu lánveitendurna. LÍVE er þar nú með lægstu vextina, 2,67%, samanborið við 2,69% hjá LSR. Birta og Almenni eru síðan skammt undan, og bjóða 2,73% og 2,74% hvor um sig. Ágætt er að taka fram að þar sem um breytilega vexti er að ræða breytist þessi staða með reglulegum hætti. Því er oft varasamt að endurfjármagna ef um lítinn mun er að ræða, þar sem vaxtamunurinn gæti hafa snúist við skömmu seinna.

Verðtryggð fastvaxtalán eru nú nokkuð sambærileg hjá öllum lífeyrissjóðunum af þeim sjö sem bjóða upp á slík lán, en einungis 0,15% vaxtamunur aðskilur lægstu og hæstu vextina í þeim flokki. Hámarkslánveiting ræður því væntanlega úrslitum frekar en vextirnir hjá mörgum sem eru að íhuga slík lán.