Nýtir þú skattfrjálsar afborganir af húsnæðisláninu?

Nú þegar árið er að klárast er góður tímapunktur til að fara yfir persónulegu fjármálin. Þegar kemur að húsnæðisláninu er hægt að spara hraðar með því að nýta sér skattaafslátt sem stjórnvöld bjóða upp á. Þessi afsláttur var hluti af Leiðréttingunni og er í formi úrræðis sem kallast skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar.

Hvernig virkar afslátturinn?

Frá miðju ári 2014 hefur verið hægt að greiða hluta af laununum sínum og beint inn á húsnæðislánið, án þess að greiða skatt af þeim fyrst. Þetta má gera í gegnum svokallaðan séreignarsparnað, sem er einnig kallaður viðbótarlífeyrissparnaður. Þessi möguleiki var nýlega framlengdur og gildir nú fram á mitt ár 2019. Því verður þessi möguleiki áfram til staðar í eitt og hálft ár í viðbót.

Skattaafslátturinn er umtalsverður og því hagstæður fyrir nær alla sem geta nýtt hann. Meðallaun á Íslandi eru um 600 þús. kr. á mánuði. Sá sem hefur það mánaðarkaup fær útborgaðar rétt rúmar 400 þús. kr. á mánuði, svo ein af hverjum þremur krónum fer í skatt. Ef séreignarsparnaður er lagður inn til vörsluaðila þarf að greiða skatt af honum með sama hætti þegar hann er tekin út síðar.

En ef séreignarsparnaðurinn er notaður til að greiða inn á lán nýtist öll upphæðin án þess að nokkur skattur sé greiddur. Í stað þess að 2 krónur af 3 séu teknar út síðar meir nýtast 3 af 3 krónum til að greiða niður lánið strax í dag. Því má segja að með úrræðinu fáist 50% ávöxtun á sparnaðinn á einum degi, því hverjar tvær krónur verða að þremur.

Hve mikið er hægt að nýta?

Þar sem mikill sparnaður felst í þessari heimild er best að nýta hana í eins miklum mæli og mögulegt er.

Hámarksupphæð sem hægt er að greiða inn á lánið er 500.000 kr. á ári fyrir einstakling og 750.000 kr. á ári fyrir sambýlisfólk. Þar sem afslátturinn byrjaði um mitt ár 2014 og lýkur um mitt ár 2017 er hægt að spara 250.000 kr. eða 375.000 kr. á þeim árum. Samtals er því hægt að greiða allt að 2,5 eða 3,75 milljónir skattfrjálst inn á húsnæðislánið, eftir því hvort um einstakling eða sambýlisfólk er að ræða.

Ekki allir ná að nýta alla þessa heimild. Séreignarsparnaður má í mesta lagi vera 6% af launum og skiptist þá í 4% framlag launþega og 2% framlag atvinnurekanda. Það þýðir að laun þurfa að vera a.m.k. 700 þ.kr. á mánuði fyrir einstakling, eða rúmlega 1 m.kr. á mánuði fyrir sambýlisfólk, til að fullnýta heimildina.

Sumir hafa brennt sig á því að nýta afsláttinn ekki eins mikið og hægt er með því að velja 2% framlag launþega. Allir nema þeir sem eru með hærri tekjur en þær sem hér voru nefndar myndu nýta meira af heimildinni með því að skipta yfir í 4% framlag launþega.

Hægt er að skoða stöðuna á heimildinni og hve mikið hefur verið nýtt af henni inni á Leiðrétting.is. Með því að smella á Séreignarsparnaður - Ráðstöfun má sjá töflu sem sýnir það fyrir hvert ár.

Hvað ef ég á ekki íbúð?

Þeir sem ekki hafa keypt íbúð áður geta nýtt úrræði sem tók gildi fyrr á þessu ári og nær yfir tvöfalt lengra tímabil. Í því tilfelli er hægt að nýta allar greiðslur í séreignarsparnað á tíu ára samfelldu tímabili sem hluta af útborgun í fyrstu íbúð eða til að greiða inn á húsnæðislánið í kjölfarið. Sama 500.000 kr. hámark á ári gildir, rétt eins og fyrir aðra íbúðareigendur.

Vertu með þitt á hreinu

Það er einfalt að athuga hvort þú sért að nýta þessar heimildir í fullum mæli. Skoðaðu launaseðilinn þinn og athugaðu hvort þú sért ekki örugglega að leggja fyrir 4% framlag launþega og 2% framlag atvinnurekanda í séreignarsparnað. Farðu síðan inn á Leiðrétting.is og gakktu úr skugga um að þú hafir sótt um að þessi sparnaður fari skattfrjálst inn á húsnæðislánið þitt. Ef hvort tveggja er raunin þá ertu með allt þitt á hreinu og ert að nýta úrræðið í þeim mæli sem mögulegt er.