Borgar sig að skipta yfir í óverðtryggt?

Verðtryggð lán eru þau vinsælustu á Íslandi, enda bjóða þau upp á lægstu afborganirnar. En verðbólga getur farið illa með fjárhag þeirra sem taka slík lán. Skoðum hvort það borgi sig að skipta yfir í óverðtryggt miðað við aðstæður í dag.

Hvenær borgar sig að skipta?

Við höfum áður verið farið yfir muninn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Markmiðið hér er ekki að gera það, heldur skoða einfaldlega hvort óverðtryggð lán borgi sig samanborið við verðtryggð lán.

Vextirnir á óverðtryggðum lánum innihalda verðbólgu, á meðan vextir á verðtryggðum lánum gera það ekki. Það þýðir að ef verðbólga verður meiri en mismunurinn á verð- og óverðtryggðum vöxtum þá borgar sig að vera með óverðtryggt lán.

Þetta á einungis við ef óverðtryggða lánið ber fasta vexti. Ef óverðtryggðu vextirnir eru breytilegir hækka þeir um leið og útlit er fyrir aukna verðbólgu. Þá tapast mögulegur sparnaður miðað við verðtryggð lán. Annað gildir um verðtryggð lán - verðbólgan leggst ofan á vextina og þeir hækka því ekki þótt hún aukist.

Tímalengd fastvaxtanna skiptir því líka máli. Þumalputtareglan er því lengra, því betra. Því fylgir kostnaður að skipta á milli lána og ef verðbólga fer af stað er vond staða að þurfa að skipta aftur um lán skömmu síðar.

Hvar liggja mörkin í dag?

Með þetta í huga getum við nú skoðað samanburðartöfluna hér á forsíðunni og borið saman verðtryggða breytilega vexti og óverðtryggða fasta vexti. Þar sjáum við að verðtryggt er um 2,7% í dag hjá fimm lánveitendum (Almenni, LÍVE, LSR, Frjálsi og Birta). Óverðtryggðir vextir til þriggja ára eru um 5,5% hjá Brú, og 5,95% til fimm ára hjá Arion ef við tökum einungis grunnlán.

Út frá þessum tölum getum við séð hvenær óverðtryggð lán borga sig. Við gerum það með því að draga verðtryggðu vextina frá þeim óverðtryggðu og finna þannig þá verðbólgu sem spáð er. Ef við drögum verðtryggðu vextina frá þriggja ára láninu frá Brú fáum við 5,53% - 2,7% = 2,83%. Fyrir fimm ára lánið frá Arion er mismunurinn 5,95% - 2,7% = 3,25%. Niðurstaðan er því þessi:

  • Til þriggja ára borgar sig að taka óverðtryggt lán ef verðbólga fer yfir 2,83% að meðaltali á tímabilinu.
  • Til fimm ára borgar sig að taka óverðtryggt lán ef verðbólga fer yfir 3,25% að meðaltali á tímabilinu.

Til að svara spurningunni um hvort óverðtryggt borgi sig þurfum við því að mynda okkur skoðun á því hvort verðbólgan muni fara yfir þessi mörk.

Fer verðbólgan yfir mörkin?

Síðustu misserin hefur verðbólga á Íslandi verið mjög lág. Verðtryggð lán hafa því ótvírætt verið betri valkostur undanfarið. Margt hefur þar hjálpað til. Til dæmis lækkaði olíuverð um meira en helming frá 2014 til 2016, og krónan styrktist jafnt og þétt á sama tíma. Olíuverð skiptir máli fyrir verðbólgu því það er bæði neysluvara og er líka mælikvarði á kostnað við að framleiða margar aðrar vörur þar sem orku er krafist. Gengi krónunnar skiptir sömuleiðis máli því stór hluti af vörum sem við kaupum er innfluttur. Sterkari króna þýðir að innfluttar vörur eru ódýrari, sem dregur úr verðbólgu.

Framtíðarhorfur eru hins vegar ekki endilega þær sömu. Til dæmis hefur olíuverð hækkað um helming frá ársbyrjun 2016, sem ætti að kynda undir verðbólgu hérlendis. Þá hefur gengi krónunnar staðið í stað frá sama tímapunkti, svo lægra verð á innfluttum vörum er hætt að vega á móti verðhækkunum á innlendum vörum.

Teikn á lofti um aukna verðbólgu

Loks eru teikn á lofti um að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði verði sagt upp í lok mánaðarins. Ef það gerist verður niðurstaða nýrra kjarasamninga meiri launahækkanir en áður var samið um. Það getur þýtt að verðbólga fari á skrið strax á næstu mánuðum.

Því eru nokkrir þættir sem skapa hættu á að verðbólgan muni aukast á næstunni. Spurningin er hins vegar hvenær, hversu mikið, og hversu lengi.

Greiningardeild Arion banka birti grein í síðustu viku þar sem niðurstaðan var á sömu leið. Deildin setur þar fram verðbólguspá til þriggja ára og spáir þar 3,2% verðbólgu á þessu ári, 3,5% á því næsta og 2,5% árið 2020. Það gerir meðaltalsverðbólgu upp á 3,07% næstu þrjú árin.

Ef sú spá reynist rétt borgar sig að skipta yfir í þriggja ára óverðtryggt fastvaxtalán, en ekki yfir í fimm ára fastvaxtalán. Greiningardeildin tekur hins vegar eftirfarandi fram í greininni: „[…] er áhættan til skemmri tíma upp á við“. Deildin telur því líklegra að frávik frá spánni verði upp á við heldur en niður. Ef það verður raunin getur fimm ára óverðtryggt lán borgað sig, sérstaklega ef verðbólgan heldur áfram að vera há lengra fram í tímann. Þá er betra að vera með fasta vexti áfram og þurfa ekki að skipta yfir í annað lán eða hærri vexti á miðju verðbólgutímabili.

Myndaðu þér eigin skoðun

Sýn á efnahagsumhverfið er órjúfanlegur hluti af því að vera með húsnæðislán á Íslandi. Ef þú vilt passa upp á að koma sem best fjárhagslega út úr láninu þarftu að fylgjast með stöðunni og mynda þér eigin skoðun á því hvernig efnahagsmálin eru líkleg til að þróast. Hér á Herborg.is höfum við áður farið yfir leiðir til að fylgjast með þróun efnahagsmála. Þannig getur þú svarað spurningunni um hvort það borgi sig að skipta yfir í óverðtryggt.