Frjálsi lokar dyrunum: ekki lengur í boði að endurfjármagna

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem býður hagstæðustu óverðtryggðu fastvaxtalánin í dag, hefur hert útlánareglur sínar. Nú er ekki lengur hægt að taka húsnæðislán hjá sjóðnum til að endurfjármagna lán annars staðar frá. Þá lækkaði sjóðurinn hámarkslánshlutfall úr 75% niður í 70% af markaðsvirði.

Samhliða hertum lánareglum hefur sjóðurinn lækkað vexti. Verðtryggð lán sjóðsins bera nú 3,32% breytilega vexti, sem eru áfram hærri vextir en hjá fimm öðrum lífeyrissjóðum. Óverðtryggð lán frá Frjálsa bera nú hins vegar einungis 5,44% fasta vexti til þriggja ára, sem er um 0,3% lægra en hjá LÍVE og Brú, sem koma þar á eftir. Fyrir þá sem vilja taka óverðtryggt lán er Frjálsi því einn hagstæðasti valkosturinn. Hægt er að sjá uppfærða töflu yfir öll íbúðalán sem eru í boði á forsíðunni hér á Herborg.is.

Ástæða hertra lánareglna er að fasteignalán eru komin í 10% af heildareignum sjóðsins, sem er það hæsta sem stjórnin telur skynsamlegt. Reglurnar voru því hertar til að koma í veg fyrir að húsnæðislán haldi áfram að vaxa í eignasafninu. Þetta kemur fram í frétt um breytingarnar á heimasíðu sjóðsins. Áfram er hægt að taka lán hjá sjóðnum vegna íbúðarkaupa eða til að endurfjármagna önnur lán frá sjóðnum.

Hagstæðustu lánin oftast tímabundin

Þessi breyting hjá Frjálsa varpar ljósi á hversu hversu hratt húsnæðislánamarkaðurinn getur breyst. Þeir lífeyrissjóðir sem lána fyrir húsnæði hafa allir ákveðin viðmið þegar kemur að heildarumfangi útlána. Ef einn lífeyrissjóður býður hagstæðustu kjörin má gera ráð fyrir að þessu viðmiði verði náð fyrr eða síðar. Þegar það gerist þá er gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari útlánavöxt. Það er þá annað hvort gert með hækkun vaxta eða hertum útlánareglum.

Þeir sem eru að íhuga að endurfjármagna lán sín með lífeyrissjóðsláni ættu að hafa þetta í huga og hefja ferlið fyrr en síðar.