Brú breikkar bilið

Brú lífeyrissjóður greindi frá því í síðustu viku að óverðtryggð lán með föstum vöxtum til þriggja ára muni lækka úr 5,76% niður í 5,53% frá og með 1. janúar næstkomandi. Með breytingunni breikkar Brú bilið á milli sín og næsta lánveitanda þegar kemur að vaxtakjörum.

Eftir breytinguna þann 1. janúar verður Brú með sambærileg kjör á óverðtryggðum fastvaxtalánum og Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem býður 5,44% vexti í dag. Munurinn er hins vegar að Frjálsi hefur lokað á lánveitingar til þeirra sem vilja endurfjármagna lánin sín með því að flytja sig til þeirra. Brú er því aðgengilegur mun fleiri lántakendum en Frjálsi.

Næstur á eftir Frjálsa og Brú þegar kemur að óverðtryggðum föstum vöxtum er Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem býður nú 6,09% vexti. Það munar því 0,56% á vöxtum LÍVE í dag og vöxtum hjá Brú eftir áramót að óbreyttu. LÍVE mun þó líklega lækka vexti eitthvað. Lánareglur sjóðsins segja að tekið sé mið af markaðsvöxtum, sem hafa verið lágir í nóvember samanborið við mánuðina á undan.