Litlar breytingar á vöxtum

Síðustu vikur hafa vextir lítið breyst. Seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum í byrjun desember, en ákvarðanir bankans veita sterka vísbendingu um þróun á húsnæðislánum í kjölfarið.

Það kom á daginn að hið sama var uppi á teningnum hjá lánveitendum. Þrír lánveitendur hafa breytt vöxtum á síðustu vikum. Í öllum tilfellum var um að ræða breytilega vexti á verðtryggðum lánum:

  • Lífeyrissjóður verzlunarmanna lækkaði vexti um 0,12%, niður í 2,74%
  • Birta lækkaði vexti um 0,10%, niður í 2,73%
  • Almenni lækkaði vexti 0,03%, niður í 2,86%

Auk þessara breytinga lengdi Almenni lífeyrissjóðurinn fastvaxtatímabil á óverðtryggðum lánum úr 12 mánuðum upp í 36 mánuði. Óverðtryggð lán sjóðsins flokkast því nú sem fastvaxtalán hjá Herborgu og er Almenni í þriðja sæti yfir hagstæðustu lánveitendur í þeim flokki.

Engar breytingar hafa orðið á óverðtryggðum vöxtum lánveitenda á síðustu vikum. Seðlabankinn ákveður næst vexti þann 7. febrúar, svo ekki er útlit fyrir miklar breytingar á kjörum á næstu vikum heldur.