Vextir á hreyfingu

Fjórir lánveitendur hafa breytt vöxtum á verðtryggðum lánum með breytilega vexti á síðasta hálfa mánuðinum. Birta og Frjálsi lækkuðu vexti um 0,32%, LÍVE lækkaði um 0,03% og Almenni hækkaði um 0,06%. Þá hafa bankarnir allir lækkað vexti nokkuð á óverðtryggðum lánum á síðustu viku í kjölfar þess að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti.

Eftir breytingarnar er Birta nú með hagstæðustu verðtryggðu lánin á breytilegum vöxtum af þeim lánveitendum sem standa öllum opnir. Fyrir opinbera starfsmenn býður LSR ennþá örlítið lægri vexti. LÍVE, Almenni og Frjálsi eru síðan allir nokkuð skammt á eftir.

Breytingarnar sýna að þegar kemur að breytilegum vöxtum er ekki augljóst að alltaf sé best að taka einfaldlega lægstu vextina sem eru í boði hverju sinni. Það felst í breytilegum vöxtum að staðan getur verið önnur nokkrum mánuðum eftir að lán var tekið. Því getur verið gott að horfa einnig almennt á lánveitendur og reyna að átta sig á því hvort þeir breytilegu vextir sem eru í boði séu einungis í skamman tíma, eða hvort vextirnir séu almennt lágir til lengri tíma litið.