Bankarnir bjartsýnir á hækkun fasteignaverðs

Íslandsbanki og Arion banki gáfu út nýjar spár um þróun íbúðaverðs í síðustu viku. Báðir bankarnir spá áframhaldandi hækkun íbúðaverðs á næsta og þarnæsta ári, en þó minni hækkunum en raunin hefur verið á þessu ári. Svona líta spárnar út:

Arion: 10 þúsund nýjar íbúðir

Greiningardeild Arion banka kynnti nýja hagspá þann 8. nóvember. Samkvæmt þeim vegur sumt gegn áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs. Annars vegar hafi hækkanir undanfarið verið töluvert umfram „undirliggjandi þætti“ að undanförnu. Hins vegar verði töluverð aukning í byggingu nýrra íbúða á næstunni. Greiningardeildin spáir því að 10 þúsund nýjar íbúðir verði byggðar fram til ársins 2020.

Á móti þessu kemur að laun munu áfram halda áfram að hækka samkvæmt spánni. Sögulega séð hefur fasteignaverð verið í beinu samhengi við laun, svo frekari launahækkanir munu að óbreyttu hækka húsnæðisverð. Þá er ennþá nokkur uppsöfnuð þörf fyrir húsnæði sem ekki verður að fullu mætt fyrr en undir lok áratugarins.

Þegar þetta tvennt er vegið saman spáir Arion banki 19% hækkun fasteignaverðs í ár, 7% hækkun á næsta ári og 4% hækkun árið 2019.

Íslandsbanki: lækkandi vextir

Íslandsbanki er bjartsýnni en Arion. Spáir bankinn því að húsnæðisverð hækki um 20% í ár, 12% á næsta ári og 5% árið 2019.

Helsta orsök mismunarins við Arion virðist vera sú að Íslandsbanki telur að vextir á íbúðalánum geti lækkað frekar hérlendis á næstu misserum. Verði það raunin mun það lækka afborganir af nýjum lánum. Sögulega hefur það skilað sé í hærra fasteignaverði.