Almenni lækkar vexti á öllum lánum

Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins ákvað í gær að lækka vexti á öllum þremur tegundum húsnæðislána sem eru í boði. Sjóðurinn er nú meðal þeirra lánveitenda sem veita bestu kjörin þegar kemur að verðtryggðum lánum.

Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum lækka úr 2,95% niður í 2,83%, verðtryggð lán með föstum vöxtum úr 3,70% niður í 3,60%. Þá lækka óverðtryggð lán með 12 mánaða föstum vöxtum úr 6,05% niður í 5,80%. Á móti þessari breytingu kemur að lántökugjald sjóðsins hækkar úr 45 þús. kr. upp í 55 þús. kr.

Eftir breytinguna er Almenni skammt undan LSR, sem býður í dag lægstu vextina á verðtryggðum lánum. Breytilegir vextir hjá Almenna eru nú 0,06% hærri en hjá LSR, og fastir vextir 0,10% hærri. Lántökuskilyrði hjá Almenna eru hins vegar raunhæfari að uppfylla fyrir flesta. Hver sem er getur greitt í sjóðinn í þrjá mánuði og orðið félagi, á meðan LSR lánar einungis til núverandi eða fyrrverandi opinberra starfsmanna.