Síðustu vikur hafa vextir breyst lítillega. Birta, LÍVE, LSR og Stapi lífeyrissjóður hafa allir lækkað breytilega vexti á verðtryggðum lánum. Hins vegar hefur LÍVE hækkað óverðtryggða fastvexti um 0,24%, og nýlegar verðbólgutölur gefa til kynna að óverðtryggðir vextir muni hækka hjá fleirum.
Allar vaxtabreytingar í aprílmánuði eru eftirfarandi, þær nýjustu fyrst:
- Almenni hækkaði verðtryggða breytilega vexti um 0,05%, upp í 2,74%
- LÍVE lækkaði verðtryggða breytilega vexti um 0,05%, niður í 2,69%
- LÍVE hækkaði óverðtryggða fasta vexti um 0,24%, upp í 6,15%
- LSR lækkaði verðtryggða breytilega vexti um 0,12%, niður í 2,57%
- Birta lækkaði verðtryggða breytilega vexti um 0,09%, niður í 2,64%
- Stapi lækkaði verðtryggða breytilega vexti um 0,12%, niður í 2,72%
Verðbólga hefur gefið í á árinu 2018 og hefur hækkað úr 1,9% í desember síðastliðnum upp í 2,8% í mars. Næsta birting á verðbólgutölum verður á föstudaginn, þann 27. apríl, og munu þær tölur ráða miklu um þróun óverðtryggðra vaxta á næstu vikum. Haldist verðbólgan há má vænta þess að óverðtryggðir vextir flestra lánveitenda hækki á komandi vikum.